RebZ, villikisi með meiru :o)

Of mikið af húsverkum valda heilaskaða....

sunnudagur, júlí 27, 2003

FASTEIGNAHORRORINN!!!

Eins og flestir vita er ég að selja íbúðina mína þar sem ég er að fara að gerast sveitastelpa og þetta er sko ekki búið að vera skemmtilegt ferli. Ég er að verða geðveik á fasteignasölunni sem er að sjá um mín mál. Ég fæ betri þjónustu í bílaviðskiptum en hjá þessu liði sem er með aleiguna mína í höndunum. Hér ætla ég að segja þessa miður skemmtilegu sögu mína. Hún er löng en vonandi nennir einhver að lesa þetta. Ótrúlegt að ég skuli enn vera nokkuð heil á geðheilsu.....

Í endaðan maí skrifa ég undir kauptilboð sem ég var þokkalega ánægð með þar sem íbúðin seldist yfir ásettu verði. Fasteignasalinn minn sem við skulum kalla Þ benti mér á að þar sem fólkið sem var að kaupa af mér ætti ekki barn þá mundu þau ekki getað yfirtekið allt viðbótarlánið sem hvíldi á íbúðinni. Það yrði ég að borga niður með þeim peningum sem ég fengi frá þeim við undirritun kaupsamnings. Fólkið sem var að kaupa var víst ekki búið að fá samþykki fyrir viðbótarláninu og því átti að verða smá bið á að málið færi upp í Íbúðalánasjóð. Allt í góðu með það. Um miðjan júní lætur Þ mig vita að þau hafi fengið samþykkið og að málið væri komið upp í Íbúðalánasjóð og ferlið þar ætti að taka um 2 vikur. Allt í góðu með það. Einnig tilkynnti Þ mér það að hann væri að fara í sumarfrí og kona sem við skulum kalla SS mundi sjá um kaupsamninginn og ferlið þar á eftir. Þriðjudaginn 24. júní hafði ég samband við fasteignasöluna til að athuga hvort eitthvað væri að frétta af þessu þar sem var á leið vestur helgina eftir og yrði eitthvað fram á vikuna eftir það. Nei þau höfðu ekkert heyrt en mér var bent á að ég gæti hringt í Íbúðalánasjóð til að kanna hvar málið lægi. (Af hverju ÉG???? Var ég ekki að borga þeim sölulaun fyrir akkúrat þessa vinnu???) Jæja ég hringdi þangað og fékk að vita að það væru engar athugasemdir á þessu en þar sem það væri viðbótarlán á íbúðinni þyrfti þetta að fara á einn stað í viðbót hjá þeim og kona að nafni Dagmar gæti svarað fleiru en hún var bara með símatíma á morgnana. Jæja ég hringdi morguninn eftir og fékk loks samband við Dagmar sem sagði mér að hún væri bara ekki farin að vinna í þessu máli en þar sem engar athugasemdir væru þá ætti þetta að rúlla í gegn og vera tilbúið þegar ég kæmi til baka að vestan fimmtudaginn 3. júlí. En ekkert heyrðist frá fasteignasölunni. Mánudaginn 7. júlí hringdi ég eina ferðina enn á fasteignasöluna en þau sögðust ekkert hafa heyrt. Djísús þarna var ég farin að vera pirruð og ákvað að taka þetta mál bara alfarið í mínar hendur þar sem greinilegt var að ekki voru þau að kanna þetta mál þótt ég væri að borga þeim fyrir þetta. Ég hringdi í Íbúðalánasjóð enn eina ferðina og vildi fá að tala við þessa Dagmar sem átti að vera með málið mitt en það náðist ekkert í hana. Ég var send fram og til baka í símanum en enginn gat gefið mér svör. Samt sagði ein að henni fyndist eins og eitthvað væri nú að en gat ekkert skýrt það nánar út. Frík frík…….. Svo á þriðjudagsmorgun hringdi ég aftur þar sem blessunin hún Dagmar átti að vera með símatíma. En enn eina ferðina náðist ekki í hana en ég lenti á æðislegri stelpu í þjónustuverinu sem vildi allt fyrir mig gera. Hún ákvað að skrifa bara tölvupóst til Dagmar og fá svör hvað væri í gangi og bauðst til að hringja svo í mig. Ég var nú loks róleg aftur og skellti mér í Smáralind með Mör söster. Rétt eftir hádegi hringdi daman í mig (man bara ekki hvað hún heitir, eina manneskjan sem hefur komið almennilega fram í þessu máli…..sorry) og sagði mér að hún hafði fundið út að Dagmar væri bara ekkert með þetta mál heldur var það kona að nafni Þóra. Hún ætlaði að reyna að fá svör hjá Þóru og hringja aftur í mig. Loks hringir hún aftur þar sem ég sit á bekk fyrir utan Smáralindina og tilkynnir mér ÞAÐ….. Þetta var bara ekkert allti í lagi, það var eitthvað að, já eitthvað mikið!!!!!!! Málið var búið að vera stopp hjá þeim frá því 26. júní, sem sagt í næstum 2 vikur. Vandamálið var það að það þurfti að borga viðbótarlánið niður um 577.000 kr áður en hægt væri að útbúa pappírana sem þurfti fyrir kaupsamninginn. Daman sagði mér að Þóra hafði sent tölvupóst á fasteignasöluna þann 26. júní til að láta vita að þetta væri stopp. Og var ég látin vita??? Nei að sjálfsögðu ekki. Ég bað dömuna vinsamlegast að biðja Þóru að hringja í mig. Á meðan ég beið hringdi ég á fasteignasöluna og bað um þessa SS en hún var veik þannig að ég talaði við einhvern fasteignasala þarna. Ég var náttúrulega alveg bandbrjál. Hann fræddi mig um það að hann væri nú bara akkúrat með svona mál hjá sér líka þar sem seljandi gat bara ekki borgað lánið upp fyrr en eftir kaupsamning og hann væri að reyna að semja eitthvað við Íbúðalánasjóð en ekkert gengi. Hvað kom mér það við??? Ég var að pæla í mínu máli ekki einhverra annarra. Hann sagðist ekkert vita um þennan tölvupóst en sagðist ætla að kanna þetta. Í því hringdi Þóra þannig að ég sagðist hringja aftur í hann. Þóra útskýrði fyrir mér að ekkert væri hægt að gera fyrr en lánið yrði greitt niður. Einnig sagði hún mér að hún hafði ítrekað tölvupóstinn til fasteignasölunnar þann 27. 2 tölvupóstar og enginn gerir neitt! Hvað er að??? En ég tilkynnti Þóru að ég skyldi bara redda þessum 577 þúsund kalli daginn eftir og borga þetta niður og bað hana vinsamlegast að hafa flýtimeðferð á málinu eftir það. Hún sagðist gera það fyrir mig og lofaði að þetta yrði tilbúið seinni part á fimmtudeginum. (Þóra var mjög almennileg við grey Lufsuna sem var að því komin að fá móðursýkiskast). Jæja ég hringdi aftur í fasteignasöluna og talaði við sama mann og áður og tilkynnti honum að ég ætlaði að borga niður þetta lán og að það skyldi verða pantaður tími fyrir kaupsamning hjá SS pulsunni á föstudeginum eftir annars mundi ég rifta þessari sölu. Þetta yrði keyrt í gegn núna!!! Hann sagðist ætla að hringja í pulsuna og athuga hvort hún væri laus og hringdi svo aftur í mig og sagði mér að hún mundi finna tíma fyrir þetta. Ég var samt hundfúl og strunsaði út í bíl með Mörgusinn á hælunum. (BTW ég var enn við Smáralindina).
En ég varð audda að redda þessum 577 þús kalli og hringdi niðurbrotin í bankann minn daginn eftir með mína sorgarsögu og þjónustufulltrúinn minn sagði bara "ekkert mál, við reddum þessu!". Ohh hvað ég var glöð. Loksins einhver sem skildi mig. Þannig að hún reddaði mér 577 þús kalli og borgaði niður þetta lán fyrir mig. Ég hringdi svo í Þóru og hún sagði mér að nú færi þetta í gegn vandræðalaust. Svo hringir pulsan loksins og segir mér það að kaupendurnir séu á leið út á land á fimmtudeginum og geti því ekki mætt fyrr en mánudaginn 14. júlí. Að sjálfsögðu eitt vesenið enn. Arg garg……..
Ég, þrjóskuhundurinn, var nú samt ekki sátt þótt þetta væri loks að ganga upp og ákvað að hringja í eigandann á fasteignasölunni til að fá svör við því af hverju svona gæti gerst. Hann skulum við kalla V. Ég var samt voða kurteis og var ekkert að æsa mig. Hann var nú ekkert voða samvinnufús. Sagði bara að hann treysti sínu starfsfólki og að enginn kannaðist við þennan tölvupóst. En því miður væri búið að eyða öllum pósti frá því þennan dag sem pósturinn átti að hafa borist. Hann vildi ekki viðurkenna nein mistök og gaf enga skýringu á af hverju enginn nema ég hafi gengið á eftir þessu máli. Samt bauð hann mér að taka saman þann kostnað sem ég hafði orðið fyrir og að hann mundi draga hann frá sölulaununum. Var hann ekki að viðurkenna einhver mistök með því???? En svo þakkaði hann mér fyrir þar sem nú væri hann kominn með þá reglu að tölvupósti væri ekki eytt. Hann sagði líka að enginn hafi vitað að viðbótarlánið þyrfti að greiðast niður fyrir undirritun kaupsamnings. HVA?? Er ég fyrsta manneskjan sem er að selja íbúð með viðbótarláni?? Einhvernveginn efa ég það. En eftir þetta símtal þá leið mér ekkert rosa vel. Fannst hafa verið traðkað illilega á mér og ég varð bara sár og leið. Hvernig átti ég að reikna út þann kostnað sem ég hafi orðið fyrir???

Eitt stykki þolinmæði: Frítt.
Símtöl á fasteignasölu til að reka á eftir málum: 500 kr.
Símtöl í Íbúðalánasjóð: 1000 kr.
Þrjú stykki móðursýkisköst: 15.000 kr.
Eitt stykki taugaáfall: 30.000 kr.
Endalaus óþægindi og svefnleysi: 100.000 kr.
Vextir og annar kostnaður: Nenni ekki einhverjum bankaútreikningum…..
Vinna (við að vinna starfið sem fasteignasalan átti að vinna): 1,85 % af söluverði íbúðar.


En hans tala var um 12.000 kall sem ég fékk í afslátt af sölulaunum með VSK. Þannig að ég greiddi þeim 290.000 kall fyrir vinnu sem mér finnst þau ekki hafa sinnt að fullnustu! Plús það að nú var ég orðin kvartandi kúnni sem enginn nennir að sinna!!! En sagan er ekki búin enn og það verður örugglega framhald þegar afsalið fer fram…..
Mánudaginn 14. júlí var loks skrifað undir kaupsamning og ég fékk útborgunina og greiddi þessi sölulaun með tárin í augunum. Lufsan er of lítil til að standa í svona veseni ein. ;o( sniff sniff. Svo átti ég líka að fá húsbréf en SS pulsan (sem var svo meira svona bjúga… úbbs ætlaði ekki að dissa fólk hér á síðunni minni en "WHAT A HELL" ég er pirr…….) fræddi mig um það að það tæki 2 daga að þinglýsa samningnum þannig að ég ætti að fá húsbréfin í síðasta lagi á fimmtudeginum. En að sjálfsögðu heyrðist ekkert í henni á fimmtudeginum þannig að ég hringi á föstudeginum og bið um pulsuna (bjúgað….) en er sagt að hún sé með fólk hjá sér. Jæja ekkert mál ég bað um skilaboð til hennar að hringja í mig. Seinna um daginn var hún enn ekki búin að hringja þannig að ég (algjör plága) hringdi aftur en þá var hún í símanum….. %###$**/!!$%%%. Ég bað um að skilaboðin mín yrðu ítrekuð þar sem mig var farið að lengja eftir húsbréfunum mínum sem ég átti að fá í síðasta lagi daginn áður!!!! Föstudagurinn leið og ekki hringdi pulsan og ekki á mánudeginum heldur. Garg á þríðjudeginum hringdi plágan enn eina ferðina á fasteignasöluna og nei pulsan er farin í sumarfrí….. Okey hver er þá með málið mitt??? Það var G. Jæja ég bað um að það yrði grafið upp hvað væri að tefja þetta núna!!! Seinna sama dag er hringt og mér tjáð að það hafði gleymst eitthvað skjal frá Íbúðalánasjóði þannig að ekkert hafði gerst í þinglýsingunni. AF HVERJU VAR ÞAÐ AÐ FATTAST FYRST NÚNA ÞEGAR ÉG ER AÐ REKA Á EFTIR ÞESSU???? Af hverju var enginn sem tók eftir þessu. Það var liðin meira en vika frá undirritun og engum fannst neitt skrýtið að þetta væri ekki komið til baka úr þinglýsingu sem átti að taka 2 daga! Var nokkur að fylgjast með þessu??? Enginn nema ÉG sem fæ samt ENGIN sölulaun. Jæja ég ákvað að taka Valíum (hahhaha glætan) og róa mig í þessa 2 daga í viðbót sem þetta átti að taka. En vitið menn…. Á föstudeginum hafði enn ekkert heyrst frá fasteignasölunni og þá var ég að því komin að gefast upp. Óðinn hringdi í mig og varð vitni að hálfskælandi Lufsunni. Hann tók málin í sínar hendur og hringdi í fasteignasöluna fyrir mig þar sem ég var komin með miklu meira en nóg af þessu veseni. Þá fær hann þau svör að skjalið hafi verið að berast frá Íbúðalánasjóði og að þetta væri á leið í þinglýsingu. Þar ættu þau að fá flýtimeðferð að þeirra sögn og að þetta ætti að vera komið næsta þriðjudag……… Er það flýtimeðferð???????? Upphaflega átti þetta að taka 2 daga og frá föstudegi fram á þriðjudag eru svo mikið sem 3 virkir dagar. Ekki sé ég flýtimeðferð á þessu. En ég fékk að sjálfsögðu enga afsökunarbeiðni þótt 2ja daga verk væri að taka meira en 2 vikur en fasteignasalan bendir á Íbúðalánasjóð þar sem skjalið vantaði frá þeim. AF HVERJU VAR EKKI FARIÐ YFIR ÞETTA ÁÐUR EN ÞETTA VAR SENT Í ÞINGLÝSINGU?????
Eins og sjá má er ég að andast úr pirrelsi. Einhver benti mér á að tala við Félag fasteignasala og kvarta undan lélegri þjónustu. Ég ætla að gera það til að reyna að koma í veg fyrir að annað fólk lendi í þessu endalausa veseni þótt ég efi að eitthvað verði gert í þessu. Ég fæ betri þjónustu í bílaviðskiptum en í íbúðasölu þótt um mikið hærri fjárhæðir sé að ræða. Þótt fasteignasalan gráti það ekki neitt þá mun ég ALDREI skipta við þá aftur!!!!
Einhvernveginn er ég viss um að enginn nenni að lesa þetta en ef einhver skyldi lesa yfir þetta endilega komið með komment. ER ÉG AÐ GERA OF MIKIÐ ÚR ÞESSU??????

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home