RebZ, villikisi með meiru :o)

Of mikið af húsverkum valda heilaskaða....

miðvikudagur, október 15, 2003

Ég var í ræðumennsku áðan og hélt ræðu um reykingafólk. Ætla að leyfa ykkur að lesa þetta yfir ef þið hafið áhuga. Bannað að dissa Lufsuna samt!!!! Veit að Dúdú á SKO eftir að láta heyra í sér núna........

Erum við í útrýmingarhættu?
Háskólaráð fór nýlega fram á það að reykingar á Kaffihúsinu á Bifröst yrðu takmarkaðar að meiri hluta en áður. Reykingabannið skannar nú mun lengri tíma en áður gerði eða frá 10 á morgnana til 13 og svo aftur frá 18 til 20 á kvöldin.Til stendur að lengja þetta bann enn frekar og banna reykingar frá 10 á morgnana og fram yfir kvöldmat. Það er sjálfsagt að banna reykingar á matartímum en hvernig er hægt að ganga svona rosalega á rétt okkar sem reykjum. Já að sjálfsögðu höfum við líka rétt. Það er ekki endalaust hægt að vera með valdbeitingu á reykingafólk og útskúfa því alveg.
Kaffihúsið
Það er einungis eitt kaffihús hér á Bifröst. Á stærri stöðum eins og í Reykjavík er möguleiki fyrir reyklaust fólk að leita inn á reyklaus kaffihús en reynslan hefur sýnt að þau eru engan veginn eins vel sótt og hin kaffihúsin sem leyfa reykingar. Það er bara þannig að sú hefð hefur skapast hjá reykingafólki að skella sér á kaffihús til að fá sér smók og gott kaffi með. Að sjálfsögðu sækir reyklaust fólk einnig í að fá sér góðan kaffisopa á kaffihúsum en að engu leyti í sama mæli og reykjandi fólk. Það vill svo til að reykingar eru einnig bannaðar í íbúðarhúsum hér á Bifröst þannig að ekki er hægt að segja reykingafólki að vera heima hjá sér að reykja.
Frímínútur
Sú niðurstaða sem komin er á lengra reykingabann á Kaffihúsinu er tómt kaffihús. Varla er hræða þarna inni eftir 10 á morgnana. Reyklaust fólk er ekki að hlaupa út á kaffihús í stuttum frímínútum til að setjast í kaffisopa. En það gerir reykingafólk. Stutt spjall yfir heitum bolla og ljúffengri sígarettu eru frímínútur fyrir reykingafólk.
Bætt aðstaða
Hægt væri að bæta aðstöðu reyklausra á Kaffihúsinu til muna með betri loftræstingu og öflugri viftum en nú er verið að setja upp. Þá væri hægt að fara milliveginn og hafa hluta af Kaffihúsinu reyklausan yfir daginn en að sjálfsögðu ætti reykingabannið að standa enn á matartímum. Ég hef heyrt að þau sem reka Kaffihúsið eru ekki sátt við þessa ákvörðun Háskólaráðs. Þetta mun verða til þess að Kaffihúsið missir mikil viðskipti og er það þegar farið að sjást. Reyklaust fólk er ekki að sækja mikið þangað inn utan matartíma. Reyklausum finnst það í fínasta lagi að reykingafólk eigi að standa úti með sígaretturnar. En hvernig væri að segja einu sinni: „Reyklausa fólkið getur staðið úti þegar reykingar eru leyfðar á Kaffihúsinu”.
Offitusjúklingar
Það er ekki réttlátt að við gefum alltaf eftir. Heilbrigðiskerfið er einnig að reyna að ganga harðar að reykingafólki. Hvað þá með alla offitusjúklingana? Eru ekki æðastíflur og aðrir offitusjúkdómar algengustu sjúkdómar hér á landi? Kannski ætti að skjóta því til Háskólaráðs að hætta að selja ostborgara á Kaffihúsinu til að stuðla ekki að frekari offitu hjá feitu fólki. Væru það mannréttindabrot?
Mannréttindi
Það er í tísku að misbeita valdi gagnvart reykingafólki. Af hverju er í lagi að biðja fólk að reykja ekki meðan verið er að borða en það er ekki í lagi að biðja fólk að vera ekki að borða meðan verið er að reykja? Ég veit að margir eru ósammála mér í þessu en það er ekki hægt að láta traðka á sér endalaust. Er ekki spurning hvort þetta séu mannréttindabrot? Þetta er okkar fíkn og reykingafólk er líka fólk, bara ekki eins lengi! 
Viðskiptaháskólinn á Bifröst
13. október 2003

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home