Klaustrið
Eins og flestir lesendum ætti að vera orðið ljóst er starfrækt klaustur hér á Bifröst. Í dag ritaði Maddaman okkur hinum bréf á vefsíðu sinni og ætla ég að leyfa ykkur að lesa það hér ásamt svari systur Bekku. Kannski löng lesning en hún mun hafa góð áhrif á sál og líkama.
"Kæra abbadís Gunnella og systir Bekka!
Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir allt sem þið hafið gert til að upplýsa fólk um lögmál Guðs. Ég hef lært margt af ykkur og geri allt sem í mínu valdi stendur til að deila þeirri þekkingu með eins mörgum og ég get.
Þegar einhver reynir að halda uppi vörnum fyrir samkynhneigð, svo dæmi sé tekið, minni ég viðkomandi einfaldlega á að í Þriðju Mósesbók 18:22 stendur: "Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð." ... og þar með er það út rætt!
Erindi þessa bréfs er hins vegar það að mig langar að biðja ykkur að útskýra fyrir mér nokkur önnur atriði varðandi lögmál Guðs og hvernig ég get best farið eftir þeim eins og sannkristin nunna. Ég er sannfærð um að þið getið svarað þessum spurningum.
Í Þriðju Mósesbók 20:13 stendur að ef karlmaður leggist með öðrum karlmanni skuli þeir líflátnir verða. Þýðir þetta að mér beri að drepa Pál Óskar og Hörð Torfa ef ég skyldi fá tækifæri til þess og annað, má ég eiga diskana þeirra áfram?
Einnig brenni ég gjarnan nautainnyfli á altarinu mínu, eins og kveðið er á um í Þriðju Mósesbók 1:9: "...til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin." Vandamálið er hins vegar fólgið í því að nágrönnum mínum finnst ilmurinn hreint ekkert þægilegur og eru búnir að kvarta til heilbrigðisfulltrúa Borgarbyggðar. Hvernig á ég að bregðast við þessu?
Vinur minn hefur verið að velta því fyrir sér að selja dóttur sína þrælasölum, eins og leyft er í Annarri Mósesbók 21:7: "Þegar maður selur dóttur sína að ambátt ..." Hvað heldur þú að væri sanngjarnt verð fyrir hana á vorum tímum fyrir 15 ára stelpu?
Ég veit að karlmaður má engin samskipti hafa við konu á meðan hún hefur á klæðum, hvorki snerta hana né sitja í stól eða liggja í rúmi sem hún hefur setið á eða legið í, eins og skýrt er kveðið á um í Þriðju Mósesbók 15:19-24. Eru einhverjar leiðir til að komast að því fyrir þá hvort þær hafa á klæðum. Ég veit að karlmenn hafa oft velt þessu fyrir sér og reynt að spyrja allar konur sem þeir eiga samskipti við, en flestar þeirra hafa tekið þessu afar illa og jafnvel slegið þá utanundir.
Í Þriðju Mósesbók 25:44 segir: "Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum sem umhverfis yður búa." Þýðir þetta að ég megi aðeins kaupa þræla af Færeyingum og Grænlendingum eða gildir orðasambandið "þjóðunum sem umhverfis yður búa" um allt evrópska efnahagssvæðið?
Vinur minn einn vinnur í Vatikaninu við aðhlynningu sjúkra og þarf því stundum að vinna um helgar. Sömuleiðis er annar kunningi minn sjómaður og vinnur því stundum á hverjum degi í allt að heilan mánuð. Vandamál mitt er að í Annarri Mósesbók 35:2 segir: "Sex daga skal verk vinna en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur,hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi skal líflátinn verða." Ber mér, sem kristinni nunnu, siðferðileg skylda til að drepa þessa vini mína sjálf, eða verður mér látin í té aftökusveit til að vinna verkið?
Fyrir síðustu Verslunarmannahelgi bannaði vinur minn syni sínum sem er á þrítugsaldri en býr enn heima að fara á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Fyrst ætlaði hann ekki að taka mark á pabba sínum, en þegar hann hótaði að reka hann að heiman ef hann óhlýðnaðist ákvað sonurinn að fara hvergi, en brást þó reiður við og kallaði pabba sinn öllum illum nöfnum, s.s. "helvítis harðstjóra" og "djöfulsins fífl". Nú þykir vini mínum vænt um son sinn, en í Þriðju Mósesbók 20:9 stendur:"Hver sá sem bölvar föður sínum eða móður sinni skal líflátinn verða." Þýðir þetta að honum beri skylda til að drepa strákinn eða tekur þetta ákvæði ekki til bölvs og ragns af þessu tagi?
Þar sem ég veit að þið eruð sanntrúaðar og biblíulesnar nunnur er ég sannfærð um að þið getið greitt úr þessum vandamálum og vonast ég eftir svari frá ykkur hið fyrsta. Þakka ykkur enn og aftur fyrir að minna mig sífellt á að lögmál Guðs eru ein og óbreytanleg um alla eilífð.
Yðar einlæg maddaman"
Kæra systir Maddama.
Ég ætla að reyna að svara þér eftir bestu vitund þótt abbadís Guðrún geti varpað skýrara ljósi á áhyggjur þínar þar sem hún er jú æðst okkar allra. Hvað varðar Pál Óskar trúi ég því að engin okkar vildi lífláta þann snilldareinstakling sama hver kynhneigð hans er. (Manstu kvöldið okkar góða, hann er bara einfaldlega æðislegur mmmm (afsakið kæru systur að ég láti út úr mér slík unaðsorð í garð karlmanns en commonnn hann er ómótstæðilegur og það vitum við allar)). Hvað Hörð Torfa varðar þá hef ég enga skoðun á þeim einstaklingi og því er abbadísin betri í að koma með ráð hvað varðar hans líflát. Palli stays og diskarnir líka!!!!!
Hvað varðar nautainnyflailminn mundi ég ráðleggja þér að gera ekkert. Við systur erum allar nágrannar og finnst ilmurinn góður og kærkominn og minnir hann okkur á trú okkar og festu í lífinu. Ef kvartanir berast skaltu reyna að hreinsa huga þeirra einstaklinga og bjóða þeim til setu á næsta klausturfundi og skulum við í sameiningu opna huga þeirra fyrir okkar málefnum.
Verð stúlkukindarinnar ferð eftir gæðum hennar og til hvers hún skal brúkuð. Ef um er að ræða t.d. eldamennsku er hægt að reikna núvirði launa eldabusku í eins og 50 ár (gerum ráð fyrir að hún fái að hætta störfum við eldamennskuna á svipuðum tíma og aðrar konur hætta störfum og því mætti nota hana til annarra verka eftir það) og jafnvel bæta við smæðarálagi eins og 0,5% til 1% þar sem ekki er úr mörgum ambáttum að velja hér á landi. Ég er viss um að góð niðurstaða finnist ef rétt er farið að arðsemisgreina stúlkukindina.
Jú það er hægt að komast að því hvenær konur hafa á klæðum. Næst þegar þú eða aðrir eru í vafa skulu þeir spyrja hátt og snjallt: “Hvaða lykt er þetta?” og horfa fast í augu þeirrar grunuðu og sjá viðbrögð hennar. Ef hún fer undan í flæmingi þá má gera ráð fyrir að hún hafi á klæðum og út frá því mætti reikna út hinn 28 daga tíðahring konunnar. Auðveld lausn ekki satt?
Hvað þræla og ambáttir annarra landa varðar þá var ég búin að svara því á vefsíðu minni. Ég tel að lönd eins og Kína, Kanada og USA ættu einnig að vera á þeim lista fyrir okkur klausturkonur.
Hvað varðar líflát vina þinna verð ég því miður að hryggja þig með því að ég tel best að þú vinnir það verk sjálf. Systur verða að lifa eftir bókum þessum og hlýða þeim fyrirmælum sem þar koma fram. Við virðum hinn heilaga hvíldardag allar sem ein og tökum á okkur þá ábyrgð upplýsa þekkingarlausa um orð bókanna.
Þjóðhátíðir eru synd innan trúar okkar og tel ég því að faðir þessi eigi sér ekki fleiri kosti nema kveðja soninn. Satan er okkar versti óvinur og ef nafn hans ber á góma tel ég að framfylgja þurfi reglum bókanna í einu og öllu.
Yðar einlæg
Systir Bekka
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home